Um okkur
Hringleikur er íslenskt sirkuslistafélag sem hyggst efla íslenska sirkusmenningu. Meðlimir félagsins stunda allir sirkuslistir og starfa við þær í einhverjum mæli. Hringleikur stendur að framleiðslu sirkussýninga á Íslandi, og auk þess rekur hann sirkusstarfsemi fyrir börn og unglinga: Æskusirkusinn.
Meðlimir Hringleiks koma úr ýmsum áttum, en hafa það allir sameiginlegt að vilja stunda sirkuslistir og byggja upp fjölbreytta sirkusmenningu hérlendis. Sirkusfólkið í Hringleik hefur meðal annars bakgrunn úr fimleikum, leiklist og dansi, og einhverjir hafa numið sirkuslistir í sirkusskólum erlendis, s.s. í Codarts listaháskólanum í Rotterdam og AFUK í Kaupmannahöfn, auk þess að hafa stundað og starfað við sirkuslistir um árabil hér á Íslandi. Hringleikur - sirkuslistafélag var stofnað vorið 2018 með það að leiðarljósi að búa til aðstæður fyrir sirkuslistafólk til að útbúa fjölbreytta og vandaða sirkuslist og gera sirkus að stærri og sjáanlegri hluta af menningarflórunni á Íslandi. Meginmarkmið félagsins er að styðja við vöxt sirkuslistar á Íslandi, og gerir það með því að standa að fjölbreyttum sirkussýningum og viðburðum, sjálfstætt og í samstarfi við ýmsa aðila og hátíðir, auk námskeiða og sirkusstarfs fyrir ungmenni og annað áhugafólk um sirkuslistir þar sem fleiri læra að stunda og njóta sirkuslistar. Hringleikur vill auk þess bjóða upp á aðstæður fyrir sirkusæfingar og -iðkun, og er í samstarfi við ýmsa aðila með því sjónarmiði, svo sem Glímufélagið Ármann og Primal Iceland. Hringleikur er meðlimur í SL - Sjálfstæðu leikhúsunum, Baltic Nordic Circus Network og Caravan, alþjóðlegum samtökum um æskusirkus og samfélagssirkus. Hringleikur vill með starfi sínu stuðla að á Íslandi sé fjölbreytt sirkussena sem hefur upp á að bjóða vandaðar sirkussýningar ætlaðar breiðum áhorfendahópi, bæði samtímasirkus og með klassískum brag, öflugt ungmennastarf sem eflir þátttöku og áhuga á sirkus í landinu, og að til staðar sé hentugt húsnæði sem áhuga- og atvinnufólk í sirkus geti nýtt til æfinga og sköpunar. |