Tilraunakvöld

Sviðslistafólk þroskast mest á því að standa á sviði og kanna þar möguleika sína. Með það að markmiði að gefa sirkus- og sviðslistafólki tækifæri á að þroska hugmyndir sínar höfum við komið á fót Tilraunakvöldum, þar sem tækifæri gefst til að sýna verk í vinnslu eða jafnvel að prófa nánast ómótaðar hugmyndir. Hringleikur og Dansverkstæðið hafa tekið höndum saman til að standa að slíkum viðburðum, en fyrsta Tilraunakvöldið fer fram 2. maí 2019.

Um verkefnið:

Ert þú með hugmynd, verk, senu eða atriði sem er mögulega frábært, mögulega glatað? Tilraunakvöld er fullkominn staður til að komast að því.

Sviðslistafólki gefst kostur á að prófa hugmyndir sínar á sviði fyrir framan áhorfendur og fá endurgjöf frá þeim.

Viðburðurinn fer fram í stóra sal Dansverkstæðisins, á 12x12 m dansgólfi, ca. 4 m lofthæð og er bæði ljósa-og hljóðkerfi til staðar. Þetta er því frábært tækifæri til að sýna á fullbúnu sviði. Það er ekki tjald/baksvið og ekki aðstæður til að rigga úr loftinu.

Tilraunakvöldið fer þannig fram að þátttakendur sem hafa skráð sig til leiks sýna sitt verk eða atriði fyrir framan áhorfendur. Þegar allir hafa sýnt fá áhorfendur tækifæri til að gefa hverjum listamanni(/-hóp) endurgjöf og lýsa sinni upplifun af því sem þeir sáu.

Hægt er að sýna verk sem einstaklingur, par eða hópur. Áhugasamir mega hafa samband í skilaboðum til að skrá sig með upplýsingum um þátttakendur og áætlaða lengd. Gert er ráð fyrir hámarki 10 mínútum á hvert atriði, það má sýna fleira en eitt verk/atriði.

Aðgangur er ókeypis og öllum er velkomið að koma að horfa.