Um okkur

Hringleikur er nýtt íslenskt sirkuslistafélag sem hyggst efla íslenska sirkusmenningu. Meðlimir félagsins stunda allir sirkuslistir og starfa við þær í einhverjum mæli. Hringleikur stendur að framleiðslu sirkussýninga á Íslandi, og auk þess rekur hann sirkusstarfsemi fyrir börn og unglinga: Æskusirkusinn.

Meðlimir Hringleiks koma úr ýmsum áttum, en hafa það allir sameiginlegt að vilja stunda sirkuslistir og byggja upp fjölbreytta sirkusmenningu hérlendis. Sirkusfólkið í Hringleik hefur meðal annars bakgrunn úr fimleikum, leiklist og dansi, og einhverjir hafa numið sirkuslistir í sirkusskólum erlendis, s.s. í Codarts listaháskólanum í Rotterdam og AFUK í Kaupmannahöfn. Auk þess hefur hópurinn starfað saman til margra ára undir merkjum Sirkus Íslands.

Stjórn Hringleiks - sirkuslistafélags

  • Formaður: Eyrún Ævarsdóttir
  • Varaformaður: Thomas Burke
  • Gjaldkeri: Bryndís Torfadóttir
  • Ritari: Kári Svan Rafnsson
  • Kennslustjóri: Daníel Sigríðarson
  • Verkefnastjóri: Jóakim Meyvant Kvaran
  • Meðstjórnandi: Harpa Lind Ingadóttir
  • Tveir varamenn: Axel Diego, Urður Ýrr Brynjólfsdóttir

Stofnað

Hringleikur - sirkuslistafélag var stofnað með það að leiðarljósi að búa til aðstæður fyrir sirkuslistafólk til að útbúa fjölbreytta og vandaða sirkuslist og gera sirkus að stærri og sjáanlegri hluta af menningarflórunni á Íslandi. Meginmarkmið félagsins er að styðja við vöxt sirkuslistar á Íslandi, og gerir það með því að standa að fjölbreyttum sirkussýningum og viðburðum, auk sirkusstarfs fyrir ungmenni þar sem fleiri læra að stunda og njóta sirkuslistar. Hringleikur vill gjarnan vera í samstarfi við aðila innan sirkus- og sviðslistasenunnar bæði innanlands og utan.

Hringleikur vonast til að í framtíðinni verði á Íslandi fjölbreytt sirkussena, sem hefur upp á að bjóða vandaðar sirkussýningar ætlaðar breiðum áhorfendahópi, bæði samtíma-sirkus og með klassískum brag, öflugt ungmennastarf sem eflir þátttöku og áhuga á sirkus í landinu, og að til staðar verði hentugt húsnæði sem áhuga- og atvinnufólk í sirkus geti nýtt til æfinga.